• Gia-kokka

Afmælishátíð og GIA verðlaunafögnuður

Við erum sautján ára!

30. apr. 2018

Við erum hrikalega montin yfir að hafa nýlega unnið til Alþjóðlegra nýsköpunarverðlauna í flokki framúrskarandi verslana (Global Innovation Awards for Retail Excellence) og nú langar okkur að bjóða þér að fagna með okkur. Það vill líka svo til að við erum nýorðin 17 ára og okkur fannst því tilvalið að skella í allsherjar afmælis- og verðlaunahátíð um helgina!


Fimmtudagurinn 3. maí

Herlegheitin byrja fimmtudaginn 3. maí klukkan 17 með GIA verðlaunafögnuði og stendur veislan til kl. 19. Fyrstu fjörutíu veislugestirnir fá gjafapoka sem inniheldur meðal annars glaðning frá The Organic Company, Reykjavík Letterpress og Saltverk. Plötusnúðurinn Sakana sér um að halda uppi stemningu en Rolf Johansen & Company ætla að sjá til þess að enginn verði þyrstur. Við ætlum síðan að gera ýmsar tilraunir sjálf og verður afraksturinn í boði í formi puttamats. Við lofum skemmtilegri kvöldstund á Laugaveginum!

Föstudagurinn 4. maí

Vinir okkar í frönsku sælkeraversluninni Hyalin ætla að mæta í Kokku og bjóða alls kyns lystisemdir til sölu og smakks. 

Laugardagurinn 5. maí

Nanna Rögnvaldardóttir ætlar að kynna nýjustu bók sína, Pottur, panna og Nanna, sem hún mun árita milli kl. 14 og 15 á laugardaginn. Allir sem fjárfesta í bók þann dag geta keypt Lodge steypujárn á sérkjörum. 

Sunnudagurinn 6. maí

Hnífabrýning! Þetta er ekki flókið: Þú átt bitlausan hníf, kemur með hann og við brýnum hann fyrir þig. Ókeypis. Chef's Choice brýnin þykja með bestu rafbrýnum á markanum en brýnin notast við demanta til að fá sem bestan árangur. Við lofum betri en upprunalegu biti á mörgum hnífategundum en hægt er að mæta með allar gerðir hnífa og fá þá brýnda. Já, líka keramík og já, líka asísku hnífana þína.