Gleðilegt nýtt ár!

Lægri vaskur og engin vörugjöld

05. jan. 2015 Fréttir

Kæru vinir! Nú er vinnuárið 2015 endanlega gengið í garð og nær allir skriðnir úr hýði sínu eftir hátíðirnar. Þetta þýðir að opnunartími hjá okkur er aftur kominn í eðlilegt horf: 10 - 18 mánudaga - föstudaga og 11-18 laugardaga. Er ekki bara ágætt að vera aftur kominn í rútínu eftir sukk og letilíf síðustu vikna?

Verðbreytingar

Eins og flest ykkar vita breyttist virðisaukaskattur núna um áramótin. Nær allar vörur hjá okkur lækkuðu og okkur fannst sérstaklega gaman að afnema vörugjöldin af öllum gólfmottum. Nú förum við líka að panta aftur inn hraðsuðukatla og annað sem bar vörugjöld og kemur til með að lækka með næstu sendingu. Breytingin á virðisaukaskatti er 1,2 prósent, en það eru 12 krónur af hverjum þúsundkalli. Það er mikil vinna framundan við að fínpússa verðlagningu. Til dæmis má vinna aðeins í fagurfræðinni á bak við tölurnar - vonandi láta viðkvæmnir fagurkerar það ekki á sig fá í millitíðinni. Á Laugaveginum er ekki búið að verðmerkja allar vörur upp á nýtt en þær sem eru rangt verðmerktar kosta í öllum tilfellum minna en merkt verð. Örfáar vörur hækkuðu í verði, allar bækur og sú litla matvara sem við erum með.

Við höldum áfram að bæta vefsíðuna á nýju ári en hún er í stöðugri þróun. Allar ábendingar eru vel þegnar í tölvupósti eða á facebook síðu okkar. Vonandi njótið þið nýja ársins í góðum félagsskap og með góðum mat, hvort sem þið dembið ykkur í hollustupakkann eða ekki!