• Kulur
    Kærleikskúlan 2017

Kærleikskúlan 2017

Ūgh, Bõögâr og Askasleikir eru komnir til byggða

06. des. 2017

Egill Sæbjörnsson hannar Kærleikskúlu ársins í samvinnu við vini sína, tröllin Ūgh og Bõögâr. Egill var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum í ár en þar voru tröllin Ūgh og Bõögâr í aðalhlutverki. Egill segir að tröllin hafi verið mjög áhugasöm um að aðstoða hann við gerð Kærleikskúlunnar og vildu helst gera kúlurnar sjálfir. 

Þeir sögðu að þeir væru miklu betri í þessu en ég. Þeir urðu æstir og rifust síðan svo mikið um hvað ætti að vera á kúlunum að þeir festust inn í þeim.

Egill-saebjornssonEgill segir að það sé best að fara varlega með kúlurnar og passa að þær brotni ekki. „Þá gætu þessi gráðugu tröll sloppið út og kannski eyðilagt jólin fyrir manni,“ segir hann.  

Kærleikskúlan er til sölu hjá okkur á Laugaveginum og rennur allur ágóði af sölu hennar óskiptur til sumarbúðanna í Reykjadal.

 

Jólaóróinn 2017


Askasleikir-asta-og-goddur

Askasleikir er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í ár. Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) hannaði óróann og Ásta Fanney Sigurðardóttir, handhafi Ljóðstafsins í ár, samdi kvæði um kappann. Askasleikir prýðir greinar Óslóartrésins á Austurvelli. Þetta er í tólfta sinn sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út jólaóróann. Kertasníkir var fyrstur í röðinni en hann kom út fyrir jólin 2003. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið með því að skreyta Óslóartréð með óróa ársins. 

Allur ágóði af sölu jólaóróanna rennur til Æfingastöðvarinnar en þangað sækja börn og ungmenni með frávik í hreyfingum og þroska þjónustu. Þau fá aðstoð sjúkra- og iðjuþjálfa við að bæta færni sína í leik og starfi svo þau geti þroskast, dafnað og notið lífsins. Jólaóróinn er til sölu í Kokku á Laugavegi 47.

 

Nótt nr. 17 


heyr! heyr! heyrist hvíslað

 

hann sleikir upp upp upp til agnanna

tæmir alla askana 

betri uppvaskara 

er hvergi hægt að finna


* * *

Glerrósir uxu hægt 
upp glugga nr. tungl

hvísluðu á milli sín í stillu 

er þetta hann?
töldu niður

- daga

- mín 

- sek

til nætur nr. 17 

hvað eruð þið að gera?

spurði ég

 

við erum að fylgjast með slefi í niðdimmu

það drýpur úr vikunum

það lekur úr askinum

frystir kristöllum 

í taumunum

* * *

Norðurslæður læddust 

niður náttþak

dönsuðu ljósi á milli sín í stillu

þarna er hann! 
töldu upp litina
- gult 

- grænt

- blátt

 

þar til allur himininn leiftraði 

 

hvað eruð þið að gera? 
spurði ég

við erum að lýsa upp nóttina fyrir rúðurósir
svo þær sjái 
askana

galtóma

slefaða 

sleikta

ístauma

niður

hökuna 

 

svo þær sjái 

kettina

svekta

hundana 

gelta

á svein í makindum

sleikjandi ask

 

* * *

heyr! heyr! heyrist hvíslað

hann sleikir upp upp upp til agnanna

tæmir alla askana 

betri uppvaskara 

er hvergi hægt að finna

-      Ásta Fanney Sigurðardóttir