Kjötbollur í ítalskri sósu

16. nóv. 2014 Uppskriftir Hægeldun heimilismatur

Bollur: 

 • 1 kg gott nautahakk 
 • ½ kg gott svínahakk 
 • 8 brauðsneiðar án skorpu 
 • 1 gráðostur (125 g) 
 • 6-8 tsk þurrkað laufkrydd (basil, oregano, marjoram...) 
 • svartur pipar 
 • salt 

 

 • Olía til steikingar

Sósa:  

 • 5 gulrætur, rifnar 
 • 4 hvítlauksrif 
 • 5 dósir plómutómatar 
 • 2 dl rauðvín (má sleppa) 
 • 2 dl vatn 
 • 2 msk tómatkraftur 
 • basil, oregano 
 • 1-2 msk balsamedik 
 • 1-2 msk hlynsýróp

 

 • Spaghetti í hæfilegu magni m.v. fjölda matargesta.

Útbúið bollurnar.  Setjið hakkið í matvinnsluvél eða skál.  Rífið brauðið niður í litla bita og bætið saman við, það má líka bleyta brauðið í mjólk eða sleppa því alveg.  Bútið gráðostinn niður í litla bita og bætið saman við ásamt kryddinu.  Galdurinn felst í því að krydda bollurnar mikið - ég passa að láta alltaf aðeins meira af laufkryddi en ég held að sé nóg - annars verða bollurnar bragðdaufar.  Hnoðið saman.  Að lokum má bæta við allt að einu hrærðu eggi til að bollurnar loði betur saman - byrjið á hálfu eggi og bætið við ef þarf.  

Mótið bollurnar með því að velta þeim á milli handanna, best er að hafa bollurnar smáar eða u.þ.b. 2 cm í þvermál.  Bollurnar eiga að vera þéttar og loða vel saman - og maður þarf að standast freistinguna að láta þær stækka eftir því sem líður á. 

Útbúið sósuna.  Mýkið rifnar gulrætur og hvítlauk í ólífuolíunni við vægan hita og passið að ekki brenni við því að þá getur sósan orðið römm.  Bætið tómötunum út í og látið krauma við vægan hita á meðan kjötbollurnar eru steiktar. 


Steikið kjötbollurnar í skömmtum, hæfilegum m.v. stærð pönnunnar og rúllið þeim til þannig að þær brúnist jafnt.  Þerrið þær næst á húsbréfum og passið að sem mest af olíunni renni af bollunum.  Mér finnst best að kæla bollurnar nokkuð áður en ég bæti þeim út í sósuna - þær loða betur saman þannig.  

Maukið sósuna með töfrasprota, bætið við rauðvíni og/eða vatni og kryddið.  Bætið þvínæst bollunum saman við í rólegheitunum svo að ekki sullist út um allt.  Leyfið sósunni að malla áfram við vægan hita á meðan saltvatn er hitað fyrir pastað og það soðið.  Smakkið sósuna til og bætið við ferskum basillaufum og smjörklípu.  

Berið fram með heitu brauði og nýrifnum parmesan osti. 

Þessi skammtur dugar fyrir a.m.k. 10 svangar manneskjur í fullri stærð - en það er líka tilvalið að elda svona skammt fyrir færri og frysta afganginn í hæfilegum skömmtum til upphitunar.   

Heildareldunartími:  Það tekur lungann úr einum eftirmiðdegi að elda svona ofurskammt af kjötbollum - en það er vel þess virði öðru hvoru.  Það er bæði nokkuð tímafrekt að móta tæplega 200 kjötbollur en gengur vel ef nokkrir hjálpast að og svo verður rétturinn betri því lengur sem sósan fær að malla við vægan hita.