• Lussekatter---1

Lúsíubollur úr súrdeigi

ca. 24 stykki

13. des. 2017 Uppskriftir Bakstur súrdeig jól

Lúsíuhátíðin er haldin hátíðleg 13. desember ár hvert, þá einna helst í Svíþjóð. Á 19. öld var talið að þessi dagur væri sá stysti á árinu og þ.a.l. nóttin sú lengsta. Gamlar þjóðsögur héldu því fram að allskyns óværur væru á kreiki þennan dag og þær þyrfti að fæla burt með söng og ljósi. Hefðin var sú að elsta dóttir heimilisins bar krans með kertum á höfði og vakti foreldra sína með söng, heitum drykk og lúsíubollum. Bollurnar geta verið hvernig sem er í laginu en hefðin segir að þær myndi stafinn s og séu skreyttar með rúsínum. Þó svo að Lúsíuhátíðin hafi kannski ekki fest sig almennilega í sessi hér á landi þá er hún samt hið fínasta tækifæri til þess að baka þessar gómsætu saffranbollur.

Eins og þið sjáið í uppskriftinni vigta ég allt innihaldið. Mér finnst langbest og einfaldast að vigta allt í stað þess að nota mörg áhöld til þess að mæla allt. Að auki verður baksturinn nákvæmari.

Dagur 1 - að kvöldi

 

 

 • 100 gr. búbblandi súrdeig
 • 350 gr. volgt vatn
 • 500 gr. hveiti

 

Blandið öllu saman í skál með höndunum og látið standa yfir nótt. Daginn eftir, þegar á að baka, á blandan að hafa lyft sér vel.

 

 

Lussekatter---2

Dagur 2

Blandan frá degi 1

 

 • 200 gr. nýmjólk
 • 100 gr. volgt vatn
 • 200 gr. smjör við stofuhita
 • 150 gr. bökunarmarsípan, niðurrifið með rifjárni
 • 500 gr. hveiti
 • 100 gr. sykur
 • 15 gr. salt
 • 2 gr. saffran
 • Handfylli af rúsínum

 

Byrjið á að setja mjólkina og saffranið í pott og leyfið því að malla á mjög lágum hita. Gætið þess að blandan fari ekki að sjóða. Leyfið blöndunni að hitna í einhvern tíma eða þar til hún er orðin fagurgul. Leggið hana þá til hliðar, hellið vatninu út í og leyfið blöndunni að kólna.

Lussekatter---3

Það er gott að leyfa hrærivélinni, þeim góða vinnuþjarki, að sjá um að hnoða deigið. Festið deigkrókinn á vélina og blandið öllu nema rúsínunum saman. Gott er að blanda hveitinu og saffranblöndunni við deigið til skiptis. Látið hrærivélina vinna deigið á lægsta hraða í rúmar 5 mín, hækkið þá hraðann og leyfið vélinni að hnoða deigið í aðrar góðar 5 mín. Deigið á að vera orðið slétt og hætt að festast við hliðarnar á skálinni. Leyfið deiginu að hvílast í 40 mín.

 

Lussekatter---4Á meðan deigið hvílist skuluð þið undirbúa rúsínurnar. Látið þær sjóða í vatni í 20 mín. Hellið þeim svo í sigti og leyfið þeim að standa þar til þið hafið mótað bollurnar. Hér má örugglega stunda örlitla tilraunamennsku og leyfa rúsínunum að sjóða í bragðbættu vatni, t.d. með kardímommu, appelsínuberki eða einhverju áfengi.

Skiptið deiginu upp í 24 litla bita. Ég mæli með að vigta deigið til að átta sig á hvað hver biti á að vera þungur, svo að lúsíubollurnar bakist jafnt. Til að móta hverja bollu rúllið þið bitanum út í langa pulsu og rúllið uppá sitthvorn endann, svona eins og þið séuð að gera stafinn s með aukalykkjum. Það má þó alveg móta deigið í bollur, flétta það eða hvað svo sem manni dettur í hug, s-ið er bara hefðbundnasta útlitið. Raðið bollunum á bökunarplötu með bökunarpappír og skreytið þær með rúsínum. Rúsínurnar eiga, samkvæmd hefðinni, að fara í sitthvort augað á s-inu. Leyfið bollunum að hefast í um 3 tíma á hlýjum stað.

Lussekatter---6

Hitið ofninn í 230° og bakið bollurnar í 15 til 18 mínútur eða þar til þær eru orðnar gullbrúnar á litinn. Þá er ekkert eftir nema að skella á sig kertakransinum og vekja einhvern með kaffi, lúsíubollum og söng. 

 

 

 

Ragnheiður Maísól Sturludóttir

Um höfundinn


Ragnheiður Maísól Sturludóttir er listamaður, framkvæmdarstýra og súrdeigsbakari. Hún hefur bakað súrdeigbrauð í 4 ár og heldur úti blogginu Nýbakað þar sem hún deilir tilraunum og uppskriftum af súrdeigbrakstri. Hún stofnað einnig Facebook-hópinn Súrdeigið þar sem súrdeigsnördar geta rætt undur súrdeigsbrauðsins. Ragnheiður Maísól datt niður á súrdeigið af tilviljun. Fyrir nokkrum árum fór hún til næringarfræðings sem ráðlagði henni að taka hveiti út úr mataræðinu sínu. Hún gat ekki með nokkru móti hugsað sér að lifa glútenlausu lífi án brauðs og pizzu og uppgötvaði þannig súrdeig, sem fer mun betur í okkur en gerbrauð. Hún byrjaði að baka af einskærri forvitni en er nú forfallinn súrdeigsbakari sem hugsar um súrdeigsmóður sína jafn vel og börnin sín, hitamælir hveitið sitt reglulega og telur að deigskafan sé besta uppgötvun mannkynssögunnar.