Magic Grip frá Kahla

Kahla boðar byltingu í postulíni. 

10. jún. 2015 Nýjungar Kahla

Eins og viðskiptavinum okkar er eflaust öllum kunnugt um er postulínið frá Kahla algjörlega frábært. Það er sterkt, þolir að fara í ofn, frysti og uppþvottavél og það kvarnast seint upp úr því. Við höfum hingað til haft fimm stell frá Kahla til sölu: Pronto, Update, Five Senses, Aronda og Tao. Nú bætum við einu við - Dîner.

Dîner er hluti af Magic Grip línunni frá Kahla. Magic Grip er byltingarkennd tækni sem hlotið hefur fjölda verðlauna. Byltingin felst í silikongripi á botninum sem gerir það að verkum að hægt er að stafla stellinu án þess að það gefi frá sér hljóð eða rispi auk þess sem það rennur ekki til á borði. Silikonið er hitaþolið eins og postulínið og þar af leiðandi er allt stellið ofnfast og má fara í frysti og uppþvottavél. Hágæða silikonið er laust við eiturefni og dregur ekki í sig óhreinindi. Silikonið undir Dîner er glært og nánast ósýnilegt. Það þolir allt að 180°C í ofni.

Hér má sjá silikonröndina undir matarstellinu. Nánast ósýnileg!

Dîner

Dîner er hægt að bera á bakka án þess að hafa áhyggjur af því að það renni til. Það staflast án þess að það glamri og staflinn er mjög stöðugur. Þetta stell hentar því einstaklega vel í atvinnueldhús en ekki síður heim í borðstofu. Það skemmir auðvitað ekki fyrir hversu fallegt og formhreint stellið er. Þessir dropalöguðu bakkar eru til dæmis alveg dásamlegir!


Dîner - Magic Grip í borðstofuna


Dîner - kaffistellið


Dîner matardiskur

Magic Grip í eldhúsið

Kahla kynnir Magic Grip í tveimur línum: Dîner í borðstofuna og eldhúslínu. Eldhúslínan samanstendur af formum úr hinum og þessum stellum sem búið er að bæta með þessari nýju tækni. Þar á meðal eru eldföst form, skálar og könnur svo eitthvað sé nefnt. Það er mikill kostur að hafa þetta stama undirlag á vinnuáhöldunum. Silikonið er sýnilegra undir þessu postulíni: á eldhúslínunni eru þykkar, svartar silikonrendur. Svarta silikonið er hitaþolnara en það glæra og þolir allt að 250°C. Þegar fatið eða formið kemur úr ofninum dregur það úr hita á borðplötunni um 40%. Það er því ekki víst að það þurfi hitaplatta en auðvitað þarf að hafa í huga hvert undirlagið er. Þegar Magic Grip stellið er komið á borð þarf ekki að halda við föt og form þegar verið er að skammta á diska. 

 

 

 

Verðlaunum skrýtt

Það þarf ekki að tíunda um það hversu þægileg þessi tækni er og viðbrögðin standa ekki á sér. Nú síðast í maímánuði fékk Magic Grip gullverðlaun IF hönnunarverðlaunanna en það eru níundu verðlaunin sem Kahla hlýtur fyrir þessa nýju tækni síðan hún var kynnt í fyrra.

Þetta eru verðlaunin sem Kahla hefur hlotið fyrir Magic Grip:

IF Gold Award 2015
Promotional Gift Award 2015
Design Plus 2015 Internationale Frankfurter Messe Ambiente
Interior Innovation Award 2015 Rat für Formgebung
Gute Gestaltung 2015 Kategorie Produkt, Deutscher Designer Club
Materialica Best-of Award 2014 München Expo
Reddot Award 2014 Design Zentrum Nordrhein Westfalen
Tilnefnt til German Design Award 2015