Eplakrans

Hvernig á að gera fallegan aðventukrans sem auðvelt og fljótlegt er að búa til

25. nóv. 2015 Föndur jól

Okkur langaði til þess að búa til örlítið öðruvísi aðventukrans þetta árið og auðvitað varð hann að vera eitthvað tengdur mat. Kransinn skyldi vera stílhreinn og einfaldur en samt jólalegur á gamaldags og rómantískan hátt. Við vildum líka að það yrði auðvelt að búa hann til. 

Kæru lesendur - við kynnum eplakransinn okkar!

 

 Þú þarft    
 4   stór epli  jólarauð
 4   kerti  í lit að eigin vali
 2 cm  kjarnskera  við notuðum kjarnskerann frá Rösle
   bakka  við notuðum marmarabakkann frá Duka

Byrjum á eplunum. Venjulega kysum við þau kannski lífræn en í þessu tilviki er ágætt að eplin séu vaxborin og glansandi. Hvað er jólalegra en eldrauð, amerísk og erfðabreytt epli? Eplin þurfa að vera tiltölulega stöðug en reyndar er ekkert því til fyrirstöðu að skera aðeins neðan af þeim. Við eyddum dágóðum tíma í búðinni að finna stöðugustu og fallegustu eplin. Það er ekki galið að kaupa eins og eitt auka epli ef ske kynni að eitthvað færi úrskeiðis í föndrinu. 

 

auðveldur aðventukrans

Takið fram bretti og hafið kjarnskerann tilbúinn. Rösle kjarnskerinn sker 2 cm í þvermál en það vill svo til að það er einmitt þvermálið á flestum hefðbundum kertum. Hann hentar því einstaklega vel í þetta verkefni. Gætið þess að halda kjarnskeranum alveg lóðrétt yfir eplinu. Kertið mun standa í gatinu sem kjarnskerinn býr til svo það skiptir miklu máli að það halli ekki. Sjálfur eplakjarninn er algert aukaatriði í þessu tilviki og þið getið litið fram hjá honum ef eplið sjálft hallar smá. Því næst þrýstið þið niður skeranum og skerið alveg í gegn. Hafið tusku eða eldhúspappír við höndina því nú mun leka úr eplinu, mismikið auðvitað eftir því hversu safaríkt það er. Endurtakið þetta þrisvar sinnum í viðbót. Nú er kransinn næstum tilbúinn.

Okkur fannst hvíti marmarabakkinn okkar með brúninni alveg tilvalinn til að hafa undir enda styður hann aðeins við eplin svo við þurftum alls ekkert að skera neðan af þeim. Auk þess gefur hann aðventukransinum stílhreinan og hátíðlegan blæ. Passið ykkur þó að láta eplin standa tóm yfir nótt ef þið veljið þennan bakka og setjið jafnvel eitthvað í botninn á honum því sýran úr eplunum getur eyðilagt marmara. Við ákváðum til öryggis að sníða til smá sellófanbút sem passar í botninn. Auðvitað er hægt að hafa nánast hvaða bakka, disk eða bretti sem er undir eplunum og bæta við skreytingum eftir smekk. Þegar þið hafið valið bretti eða bakka má koma eplunum fyrir og setja kertin á sinn stað. Eplin ættu að halda þétt utan um kertin og þau ættu að fara nógu langt ofan í gatið til að allt sé stöðugt. 

sniðugur aðventukrans Kransinn tekur sig vel út í borðstofunni

 

aðventukrans úr eplum diy aðventukrans

 

Aukaútgáfa - Aðventukrans námsmannsins!

 

Þessi er fyrir þá sem eru ekki tilbúnir að eyða miklum peningum í aðventukransinn sinn. Hinn er alls ekki dýr en þessi kostar bókstaflega jafngildi fjögurra konfektepla og fjögurra sprittkerta.


auðveldur aðventukrans Það þarf engan bakka undir þennan krans en það er fallegt að hafa smá greni

 Þú þarft    
 4  konfektepli  
 4  sprittkerti  
 4 cm  kjarnskera  við notuðum  þennan frá Tellier 
   lítinn oddhvassan hníf  t.d. ávaxtahnífinn frá Rösle
   útskurðarhnífa (ekki nauðsynlegir)  


Komið eplunum fyrir á bretti og hafið kjarnskerann tilbúinn. Kjarnskerinn frá Tellier er 4 cm í þvermál en það er einmitt passlegt fyrir sprittkerti. Hér þarf aftur að hafa í huga að skera beint þótt það sé ekki alveg jafn mikilvægt fyrir þennan krans eins og hinn. Eplin sem við notuðum voru vel vaxborin svo okkur fannst best að þrýsta skeranum þétt niður á eplið þar til myndaðist rönd. Svo skárum við eftir röndinni í hýðið með hnífnum svo skurðurinn væri hreinn og snyrtilegur, áður en við kláruðum að skera kjarnann á eplinu. Grafið göt í öll fjögur eplin. 
Nú er hægt að merkja eplin með tölum. Þar sem þessi krans er með sprittkertum er ágætt að aðgreina kertin því ekki minnka þau mikið. Þetta er hægt að gera til dæmis með límmiðum eða penna. Við ákváðum hins vegar að skera í eplin með útskurðarhnífum. Þar sem við höfðum áhyggjur af að sárið yrði ljótt helltum við einfaldlega smá kertavaxi í það. Það er líka hægt að pensla sárið með smá sýru eins og sítrónusafa eða ediki. Svo er hægt að nota t.d. býflugnavax og loka því alveg. 

 

Takk fyrir að lesa og njótið aðventunnar!