• Kartöflur að líbönskum sið

Batata harra

Smælki að líbönskum sið

26. sep. 2016 Uppskriftir Fljótlegt vegan

Það er komið haust. Ef einhver var í afneitun hlýtur rigningin að hafa skolað henni burt að mestu og vindurinn feykt burt síðustu efasemdunum. Alvöru matgæðingar taka þessari staðreynd opnum örmum: Með haustinu kemur uppskera og hún er alls ekki af verri endanum í ár. Við fögnum því haustinu sem er skollið á með rigningu og roki, smælki og sveppum. Hver nennir svo sem að hafa endalaust sumar?

Um daginn birtum við mynd á Instagram af kartöflum að líbönskum sið. Kartöflurnar vöktu verðskuldaða athygli bæði við matarborðið og á samfélagsmiðlum. Þetta er skemmtileg nálgun við smælkið sem er svo gott á þessum árstíma að fæstir komast lengra en að borða það eintómt með smjöri og salti. Við erum reyndar lykilmeðlimir í aðdáendaklúbbi smjörs en það eru til svo margar aðrar leiðir við að elda kartöflur. Þessa uppskrift er hægt að gera allt árið og skera niður kartöflurnar eftir hentugleika. Hún er þó alveg einstaklega gómsæt þegar notað er nýupptekið smælki.

Eins og vinir okkar á samfélagsmiðlum tóku kannski eftir skelltu Kokkusystur sér nýlega á árlega vörusýningu í París en Maison & Objet sýningin er ómissandi liður í að finna nýjar og spennandi vörur fyrir búðina. Það tekur á að þeytast um sýningarsali í leit að næsta stóra eldhústrendi og eftir langan dag er aðeins eitt í stöðunni: Að slappa af yfir góðum mat og vínglasi. Það var einmitt þetta tilefni sem dró systurnar á veitingastað í París sem var Guðrúnu innblástur að kartöflunum á myndinni.

Í byrjun september vorum við systur á vörusýningu í París. Slíkar ferðir eru alltaf notaðar til að borða vel og fer mikill tími í aðdraganda ferðar í að spá í hvar og hvað á að borða. Að loknum löngum vinnudegi þar sem meðalskrefafjöldinn er um 18.000 skref er mikilvægt að nærast vel. Í þessari ferð fórum við á líbanskan stað og pöntuðum okkur ótal mismunandi smárétti. Þar á meðal kartöflurétt sem við féllum alveg fyrir. Hann nefnist batata harra, sem mér skilst að þýði einfaldlega kryddaðar kartöflur. 
  Við fjölskyldan erum með matjurtagarð þar sem gerðar hafa verið ýmsar tilraunir. Jarðarberjaræktin gengur betur með hverju árinu og það hefur verið góð spretta í baunum. Kúrbítsplönturnar gefa mismikið af sér frá ári til árs og ýmislegt hefur misheppnast. Það sem er samt alltaf öruggt er að við eigum nóg af kartöflum á haustin. Um daginn héldum við uppskeruhátíð og þegar ég fór að íhuga hvað ég ætti að gera við allar þessar kartöflur datt mér strax líbanski rétturinn í hug. Við flakk mitt um vefinn fann ég alls kyns útgáfur af þessum rétti en ákvað að hafa þetta frekar einfalt í fyrstu tilraun. 
 Batata harra - meðlæti fyrir fjóra  
 kartöflur  u.þ.b. 700 g
 grænmetisolía  til steikingar
 3 msk ólífuolía  
 1-2 hvítlauksrif  fínsaxað eða kreist í hvítlaukspressu
 slatti af kóríander  saxaður
 salt og pipar  eftir smekk
 safi úr 1 lime eða sítrónu  

Kartöflurnar eru steiktar í grænmetisolíu, hér var notað smælki en það má einnig skera kartöflur í teninga. Þegar kartöflunar eru steiktar og stökkar hitar maður ólífuolíu (ca. 3 matskeiðar) í annarri pönnu. Hvítlauknum er bætt við þegar olían er orðin heit en gætið þess að hann brenni ekki. Eftir augnablik er kóríander bætt út í og svo kartöflunum. Kryddið með salti og pipar. Kartöflurnar settar í skál og limesafi kreistur yfir. 

Uppskriftin er vegan!

 

 Tengdar vörur    
 hvítlaukspressa úr stáli frá Rösle  Kartöflupoki fyrir uppskeruna  djúp stálpanna frá deBuyer
 Rösle hvítlaukspressa  strigapoki fyrir uppskeruna   Paysanne sveitapanna