Pappelinu nýjungar

Nýjustu stefnur og straumar í mottumálum - 2015 línan frá Pappelinu er lent. 

16. mar. 2015 Nýjungar pappelina

Flestir viðskiptavinir okkar eru farin að þekkja motturnar frá Pappelinu. Þetta eru litríkar, slitsterkar og fallegar mottur sem eru framleiddar í Svíþjóð. Motturnar eru ofnar úr PVC-plasti í pólýester - en hvort tveggja er sænsk framleiðsla - í hefðbundnum vefstólum. Þessi aðferð er þekkt og rótgróin í Svíþjóð þar sem er rík vefnaðarhefð. Motturnar henta vel þar sem er mikið álag, til dæmis í anddyrið, eldhúsið, baðherbergið eða á ganginn, enda er gott að þrífa þær og þær tapa ekki lit eða lögun. Úrvalið skemmir auðvitað ekki fyrir (þótt sumum verði nóg um af valkvíða) og nú hefur Pappelina bætt við fjórum nýjum mynstrum.

Mynstrin eru þau Asta, Ants, Folke og Noa. Það hefur líka bæst í litaflóruna en nú er hægt að fá mottur í tvenns konar turkíslitum. Auk þess koma bæði Asta og Ants í nýjum lengdum, 180 sm og 270 sm, sem okkur þykir mikil búbót.

 

Asta

Ásta daðrar við hina hefðbundnu sænsku plastmottu með kaflaskiptum mynstrum í gráu og litum frá 6. áratug síðustu aldar. Búið er að uppfæra munstrið með því að blása það upp og bæta við nýtískulegri formum. Af nýju mottunum er langmest litaúrval í Ástu en hún kemur í fölbleiku, ljósturkís, bláu, grænu og gráu. Hún fæst svo í stærðunum 70 x 90, 180, 270 og 360 sm.

Ants

Ants er innblásin af munstri sem hönnuðurinn sá á förnum vegi. Það varð að þessu fallega keðjumunstri sem er hægt að snúa við og nota beggja vegna. Á „röngunni“ er Ants með lituðu munstri á hvítum grunni og kanturinn verður grár. Hún kemur í lengdunum 70 x 90, 180, 270 og 360 sm. Litirnir eru dökkturkís, grár og appelsínugulur.

Folke

Folke er litrík motta sem sækir innblástur í hefðbundinn klæðnað Svía en hann útleggst sem „folkdräkter“ og er vísunin því augljós. Litlu rauðu húsin sem einkenna sænsku Dalina voru Linu Rickardsson líka ofarlega í huga. Pappelinu verksmiðjan er einmitt staðsett þar. Folke hleypur á heilu tugunum í 70 x 100, 200, 300 og 400 sm og fæst í bláu, gráu og rauðu.

Noa

Sjarma Nóa er erfitt að fanga á mynd en þessir fölu litir og þétt munstrið eiga einstaklega vel saman. Nói er náskyldur Veru, einni vinsælustu mottunni okkar og skyldi engan undra að viðtökurnar hafa verið góðar! Honum er hægt að snúa við en þá verður munstrið úthverft og litaði kanturinn hverfur. Nói kemur í 70 x 50, 90, 150, 250 og 350 sm, í ljósturkís, ljósgráu og dökkgráu.

Nýr litur í Molly

Auk nýju mynstranna hefur bæst við litur í Molly en hún hefur lengi verið mjög vinsæl hjá okkur. Litirnir eru á þessum kóral og turkísskala sem okkur skilst að verði áberandi í ár. Það er ekki að því að spyrja að Mollý turkís hefur heldur betur unnið okkur á sitt band. Molly kemur í 70 x 100, 200, 300 og 400 sm.

Vissuð þið af nýju mottunum Mono og Duo sem komu síðasta haust?

Pappelinu motturnar hafa hingað til eingöngu fengist 70 sm á breidd en nýlega bættust við tvær línur frá þeim sem eru breiðari. Þessar mottur fást í stærðunum 85 x 160 sm og 85 x 260 sm. Mono og Duo eru ofnar þéttar en flest önnur mynstrin og eru því þykkari auk þess sem kanturinn er faldaður. Þetta eru því sannkallaðar lúxusmottur. Þeir sem hafa verið að bíða eftir breiðari renningum frá Pappelinu hafa verið bænheyrðir!

Mono og Duo eru báðar röndóttar en á Mono sést varla litamunur. Hún er því blæbrigðarík en hentar vel þeim sem vilja ekki mikið munstur á gólfið hjá sér. Mono fæst í núggat, hvítu, rauðu, ljósgráu, dökkgráu, grænu, bláu og svörtu. Duo er tvílit með hvítum og lituðum röndum til skiptis. Hún fæst í ljósgráu, grænu, bláu, leirlitu, svörtu, núggat, dökkgráu og rauðu.

Auk þessara nýjunga eigum við að sjálfsögðu stútfullan lager af alls kyns mottum og sjálfsagt að taka við sérpöntunum!