Píta með marokkósku lambi

16. nóv. 2014 Uppskriftir Fljótlegt lamb

Lambakjöt:  

 • 300 g lamba framhryggsfille  
 • Marokkósk kryddblanda 


Hummus:

 •   1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir 
 • 2 hvítlauksrif  
 • 4 msk virgin ólífuolía  
 • safi úr 1/2 sítrónu 
 • saltklípa 
 • paprikuduft til skreytingar 

 

Meðlæti: 

 • 1-2 chilli 

 

 • 1-2 paprikur 
 • ferskur mozarella ostur 
 • skvetta af virgin ólífuolíu 

 

 • 2-3 tómatar 

 

 • 1 poki klettasalatsblanda 

 

 • Frosin pítubrauð í samræmi við fjölda matargesta

 

Grillið paprikur þangað til skinnið er orðið vel svart og setjið í plastpoka.  Látið kólna þangað til hægt er að handfjatla þær með berum höndum og hreinsið skinnið af og fræin innanúr undir rennandi vatni.  Skerið í hæfilega stóra bita og setjið í skál með skvettu af virgin ólífuolíu.  Rífið ferskan mozarella ost gróflega í höndunum og hrærið saman við. 

Skerið chilli eftir endilöngu og hreinsið fræin úr.  Grillið þangað til það er orðið mjúkt og skinnið orðið dálítið brunnið.  Látið kólna í smá stundi og takið síðan skinnið af.  Best er að leggja grillaðan chilli helming á bretti á skinnhliðina og nota sveigjanlegan beittan hníf til að skafa skjötið af skinninu (svipað og þegar fiskflak er roðflett).  Berið chilli-ið fram sér fyrir þá sem vilja hafa mikið bragð af matnum sínum eða blandið því saman við papriku og ostblönduna ef allir eru í þeim flokki. 

Lambaframhryggsbitar eru vel fitusprengdir og sérlega góðir til að grilla.  Innfitan kemur í veg fyrir að kjötið verði þurrt og ekki þarf að pensla það með olíu til að það brúnist fallega.  Veltið kjötinu upp úr kryddblöndunni og setjið það á vel heitt grillið eða grillpönnu.  Best er að grilla kjötið í minna lagi og leyfa því að jafna sig í 10 mínútur á eftir áður en það er skorið niður í þunnar sneiðar. 


Útbúið Hummusinn.  Hellið safanum af kjúklingabaununum og setjið í matarvinsluvél ásamt hvítlauksrifjunum og sítrónusafanum.  Maukið og bætið virgin ólífuolíu smám saman við þar til blandan er mjúk og hæfilega þykk.  Saltið eftir smekk.  Setjið í skál og stráið smá paprikudufti yfir. 

Skerið tómatana í sneiðar og setjið salatblönduna í skál.  Hitið pítubrauðin í ofni eða brauðrist.  Skemmtilegast er að bera matinn fram "ósamsettan" og leyfa fólki að velja hvað það setur í sína pítu og í hvaða hlutföllum. 

Þessi skammtur dugar fyrir 2-4.   

Heildareldunartími er um 30 mínútur, virk vinna allan tímann.