Súkkulaði­slátur

23. nóv. 2014 Uppskriftir eftirréttir

Innihald:   

  • 350 g gott súkkulaði (mér finnst ekki endilega gott að nota "of hreint" súkkulaði því að það er engin aukasæta í slátrinu, 50-55% súkkulaði er fínt.) 
  • 225 g íslenskt smjör 
  • 2 eggjarauður 
  • 200 g maríukex (ekki súkkulaðihjúpað) 

Tilbrigði:   

  • 1/2 dl líkjör eftir smekk, t.d. appelsínu eða möndlulíkjör 
  • 50 g möndlur og/eða hnetur 

Bræðið súkkulaði og smjör saman yfir vatnsbaði, bætið líkjör eða öðrum bragðefnum út í blönduna ef notað, leyfið súkkulaðinu að kólna lítillega og hrærið svo eggjarauðunum saman við. Hakkið maríukexið í matvinnsluvél eða setjið það í plastpoka og lemjið pokann með kökukefli, passið að kexið verði ekki að algjöru púðri því að það eiga að vera góðir bitar í slátrinu sem minna á mörinn.  Blandið kexinu saman við bráðið súkkulaðið en skiljið uþb eina lúku eftir.  Hakkið restina af kexinu niður í mylsnu og geymið.    

Smyrjið súkkulaðiblöndunni út á bökunarpappír í eina 6-7 cm þvera lengju (það má líka hugsa sér að móta sláturkeppi en mér finnst betri nýting fást úr einni lengju).  Rúllið pappírnum utan um súkkulaðið og frystið svo lengjuna fram að notkun eða amk í 4 tíma.   Takið lengjuna úr frysti amk 1 klst fyrir notkun, veltið henni upp úr mylsnunni þegar hún byrjar að mýkjast pínulítið og skerið svo í nettar slátursneiðar.  Geymist í kæli í nokkra daga og heillengi í frystinum.  

Tilbrigði:  Mér finnst gaman að gera tilraunir með líkjöra sem ég blanda saman við súkkulaðið og ég hef líka sett örlítið af Boyajian chilli olíu út í blönduna (dreg frá sama magn af smjöri á móti) til að gera sterkt slátur en súkkulaði og chillí er hrikalega gott saman.  Þeir sem eru hrifnir af möndlum og hnetum ættu líka að prófa sig áfram með að bæta létt hökkuðum möndlun eða hnetum saman við kexið.